Æi!

Heldur fólk í alvöru að sérframboð hagsmunahópa skili árangri? Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að berjast fyrir svona hagsmunum innan stjórnmálaflokkanna?
mbl.is Stefnt að stofnun nýs stjórnmálaafls: Áherslum í samfélaginu verði breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegt mat

Það er undarlegt fréttamat að kalla það ofsaakstur þegar ekið er á 120 km. hraða á fjögurra akgreina vegi. Slíkt telst eðlilegur hraði á þannig vegum í flestum Evrópulöndum. Ég held að lögregla ætti frekar að einbeita sér að því að koma í veg fyrir raunverulega glæpi en að eyða tíma sínum í að eltast við fólk sem ekur aðeins hraðar en sem nemur hámarkshraða, sem í þessu tilfelli á augljóslega ekki við í ljósi aðstæðna.
mbl.is Stöðvaður á 155 km hraða á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað næst?

Marel hefur nú lokað starfsstöð sinni á Ísafirði og samkvæmt orðum bæjarstjóra virðist næst liggja fyrir að veita opinberu fé til að tryggja að starfsemi haldi áfram í einhverri mynd.

Mikilvægt er að átta sig á samhengi þessa máls. Margoft hefur komið fram að meginástæða þess að Marel hefur þurft að flytja stóran hluta starfsemi sinnar úr landi er ótryggt rekstrarumhverfi hérlendis. Gengis- og vaxtasveiflur eru versti óvinur framleiðslufyrirtækja sem keppa á alþjóðlegum markaði. Því má segja að lokunin á Ísafirði eigi sér fyrst og fremst rætur í slæmri efnahagsstjórn. Þar á sú stefna stjórnvalda að festa æ meira opinbert fé í óarðbærum virkjanaframkvæmdum mesta sök.

Allra síst er hægt að áfellast sveitarstjórnarmenn á svæðinu, enda hafa þeir gert sér fulla grein fyrir áhrifum slíkrar stefnu og hafnað stóriðjuframkvæmdum á svæðinu.

Í þessu samhengi hlýtur maður að velta því fyrir sér hvað gerist næst. Þess verður væntanlega ekki langt að bíða að Marel og fleiri íslensk framleiðslufyrirtæki sjái sér þann kost vænstan að flytja starfsemi sína alfarið úr landi. Munu þingmenn svæðanna sem í hlut eiga þá halda því fram að rekstrarlegar forsendur einar ráði, en ríkissósíalisminn eigi þar enga sök?


mbl.is Ísafjarðarbær tilbúinn að bregðast við lokun starfsstöðvar Marels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland og Rúmenía

Í fyrrakvöld var greint frá því í fréttum sjónvarpsins að fyrir dyrum stæði ráðstefna spilakassaframleiðenda í Rúmeníu. Ekki var að heyra að fréttamanni þætti neitt athugavert við það. Þó er spilafíkn alvarlegt vandamál sem hefur eyðilagt líf fjölda fólks. Ekkert hefur heldur heyrst um andstöðu íslenskra feminista við ráðstefnuna í Rúmeníu. Ætli þeim finnist spilafíkn í fínu lagi, eða ætli það sé kannski vegna þess að þetta er í Rúmeníu? Það væri gaman að sjá svör feminista við þessari spurningu.
mbl.is Eigendur Hótel Sögu vilja hætta að sýna ljósbláar myndir gegn gjaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar nýja hugsun

Eins og Þórður Magnússon, stjórnarmaður í Torfusamtökunum, bendir á, vekur það nokkra furðu að skipulagsráð skuli leyfa breytingu á götumynd sem þegar hefur verið samþykkt í deiliskipulagi. Ég bjóst satt að segja frekar við því að nýr borgarstjórnarmeirihluti myndi reyna að hverfa frá þeirri niðurrifsstefnu sem R-listinn tók upp á síðari hluta valdaferils síns.

Í flestum evrópskum borgum er áhersla lögð á að viðhalda svipmóti eldri borgarhluta. Oft eru stífar reglur í gildi um útlit húsa, viðhald þeirra og almenna snyrtimennsku í miðbæjum. Hér hefur slíku ekki verið að heilsa. Tæpast byggir það á frelsishugsjón, enda eru ný hverfi skipulögð í þaula og frelsi húsbyggjenda varðandi útlit og staðsetningu afar takmarkað. Líklegra er að molbúahugsunarháttur gagnvart gömlum byggingum ráði, enda má gjarna sjá þau rök í málflutningi niðurrifssinna gegn eldri byggð að ótækt sé að kaupmenn geti ekki boðið viðskiptavinum upp á nýtísku klósett. Þetta fólk ætti kannski að fara til Parísar, Kaupmannahafnar eða Amsterdam og spyrja kaupmenn þar hvort klósettaðstaða skipti þá meira máli en heildstætt svipmót gamalla borgarhluta. Ég býst reyndar við að þeir færu einfaldlega að hlæja að hugmyndinni um klósett fyrir viðskiptavini einni saman!

Nýr borgarstjórnarmeirihluti hefur gert margt gott á stuttum tíma. Nærtækt er að benda á einarða afstöðu Hönnu Birnu gegn umhverfisskemmdum í Heiðmörk. Mikilvægt er að taka upp skipulagsslysið sem nú er í uppsiglingu við Laugaveginn og afstýra því einfaldlega.


mbl.is Leyfðu flutning án breytingar á skipulagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samherji og stóriðjan

Eins og forstjóri Samherja bendir réttilega á ræða stjórnmálamenn aldrei um margfeldisáhrif af atvinnustarfsemi nema um stóriðju sé að ræða. Stóriðja kemur ávallt í stað annarar atvinnustarfsemi. Samt er alltaf eins og sú starfsemi hafi ekki kallað á neina þjónustu, en um leið og niðurgreidd stóriðja kemur til eru margfeldisáhrif blásin út. Slíkur málflutningur er enn eitt dæmið um blekkingaleik ríkisafskiptasinnanna og bætist þar við vísvitandi lygar Friðriks Sophussonar um orkuverð, falsaðar lýsingar á umhverfi Kárahnjúkavirkjunar og ósannindi Valgerðar Sverrisdóttur um arðsemi virkjanaframkvæmdanna. Það væri áhugavert verkefni fyrir mannfræðing eða félagsfræðing að gera úttekt á því að hversu miklu leyti málflutningur talsmanna ríkisframkvæmda byggir á beinum ósannindum og að hversu miklu leyti óbeinum.


mbl.is Samherji er ígildi stóriðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta rétta leiðin?

Íbúakosningar um umdeild mál geta í sjálfu sér verið ágætar. Ég velti þó fyrir mér hvort þær eigi við í málum af þessum toga. Nú líður að því að Hafnfirðingar kjósi um stækkun Ísal. Vandinn er hins vegar sá, að kjósendur hafa í raun alls ekki forsendur til að mynda sér skynsamlega afstöðu. Ástæðan er sú að mikilvægustu upplýsingarnar, upplýsingar um hvort framkvæmdin sé fjárhagslega skynsamleg, skortir alfarið og er í raun haldið leyndum. Enginn veit almennilega hvert orkuverðið er né hvað kostar að virkja. Í ljósi þess að orkusalan er það eina sem skiptir máli þegar þjóðhagslega hagkvæmnin er metin þá er eiginlega augljóst að kjósendum er ófært að mynda sér rökstudda afstöðu til þess hvort framkvæmdin er skynsamleg eða ekki. Sama gildir væntanlega á Reykjanesi.


mbl.is Ungir jafnaðarmenn vilja kjósa um álver í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matlock mynd um Baugsmálið

Alveg merkilegt hvernig dómsmál sem enginn botnar almennilega í skuli geta orðið fréttaefni á forsíðum dagblaða dag eftir dag. Og svo virðist málflutningurinn fyrst og fremst snúast um það að saksóknari, sakborningur og verjandi eyða tímanum í að kalla hver annan fífl og asna!

Það þyrfti einhver kvikmyndagerðarmaður með húmor að búa til svona lögfræðingaþætti um þetta, svona eins og Matlock. Það gæti orðið gaman að því!


mbl.is Verjendur mótmæla löngum yfirheyrslum í Baugsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsum bændur

Ég óska Jóhönnu bónda hjartanlega til hamingju með geitaostinn - hvar fæst hann annars?

Þetta er enn eitt merki um hvað bændur geta gert fái þeir frelsi til að framleiða. Hvernig í ósköpunum stendur annars á því að ekki megi einfaldlega framleiða geitaostinn heima á bænum? Þannig ætti það að vera, rétt eins og í siðuðum löndum.


mbl.is Geitaostur framleiddur í Búðardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Feb. 2007
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28      

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.10.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 288250

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband