Siðbót nýja meirihlutans

Í framhaldi af OR hneykslinu hafa stuðningsmenn nýja meirihlutans margir borið í brjósti þá von að tekið yrði til í ranni þessa fyrirtækis, vinnubrögð við ákvarðanatöku bætt og gagnsæi aukið.

Miðað við orð Júlíusar og Kjartans lítur því miður ekki út fyrir að þetta sé að gerast. Fremur virðist sem markmiðið með því að stofna umræddan stýrihóp hafi verið að gera almenningi og borgarfulltrúum erfiðara að átta sig á því hvaða ákvarðanir verið er að taka og hvar þær eru teknar. Það er alþekkt brella að þegar komast þarf hjá óþægilegri umræðu á einum vettvangi getur verið sniðugt að setja upp annan vettvang og hafa svo valdmörkin milli þessara tveggja óljós og loðin.

Ætli þetta hafi verið markmið Svandísar Svavarsdóttur þegar hún hóf þessa umræðu á sínum tíma, eða er hún einfaldlega að missa þetta mál úr höndum sér?


mbl.is Krefjast stjórnarfundar í OR hið fyrsta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefni fyrir alvöru feminista?

Það að setja 15 ára stúlkubarn í heilan mánuð í fangaklefa með yfir 20 karlkyns glæpamönnum er að sjálfsögu ekkert annað en glæpur. Í fréttinni kemur líka fram að þetta sé ekkert einsdæmi í Brasilíu.

Vissulega er Brasilía langt í burtu, rétt eins og Saudi-Arabía og önnur lönd þar sem réttindi kvenna eru þverbrotin á hverjum degi. En ætti það ekki að vera viðfangsefni þeirra sem láta sig jafnrétti varða, líka á Íslandi, að berjast gegn svona löguðu? Er ekki tímanum betur varið í það en að karpa um hvað ráðherrar eru kallaðir, á landi þar sem jafnrétti kynjanna er hvað mest í heiminum og þar sem fjarstæðukennt er að ímynda sér að 15 ára barn yrði nokkurn tíma læst inni með tugum harðsvíraðra glæpamanna?


mbl.is 15 ára stúlka sett í fangaklefa með 20 mönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóleyismi - köllum alla hluti réttum nöfnum!

Ég hef verið að velta því fyrir mér, í framhaldi af alræmdu þingmáli Steinunnar V. Óskarsdóttur út af ráðherrum, hvort ekki sé víðar pottur brotinn í nafngiftum.

Helstu rök Steinunnar fyrir því að konur eigi ekki að kalla ráðherra eru þau að það sé ankannalegt að kalla konur herra. Undir þetta sjónarmið hafa margir tekið, þótt einhverjir afturhaldsseggir hafi reynt að flytja fyrir því rök að orðið ráðherra þýði allt annað en titillinn herra. En það er vitanlega bara vegna þess að þeir eru afturhaldsseggir og karlmenn með karlmiðaðar skoðanir. Það sér nú hver m... einstaklingur!

Nú vill svo til að margir hlutir bera nöfn sem hljóma ankannalega. Þar á ég ekki aðeins við starfsheiti fólks heldur líka, og ekki síður, dýr og plöntur. Það getur heldur tæpast verið einhver endapunktur í jafnréttisbaráttu að nema staðar við jafnrétti meðal mannfólksins. Náttúran á vitanlega sinn rétt líka. Dýrin eiga sinn rétt og blómin og ekki má brjóta á þeim.

"Sóley" hefur hingað til þótt gott og gilt heiti á blómi einu sem fólk ber raunar misjákvæðar tilfinningar til. Sóleyjar eru einhver algengustu blóm landsins, ásamt fíflum raunar, sem hafa þann skemmtilega kost að skipta um kyn á gamals aldri og eru svo kallaðir biðukollur fram í andlátið. Það sýnir auðvitað á kaldhæðnislegan hátt hvernig karllæg viðhorf í samfélaginu smita út frá sér: Það sem er í blóma lífsins er karlkyns, en verður kvenkyns þegar það drepst!

En fíflar voru nú ekki tilefni þessa pistils heldur sóleyjar. Við sjáum nefnilega, þegar rýnt er í nafnið sóley, að það er samsett heiti, rétt eins og "ráðherra". Sól-ey. Sól og ey. Og þá veltir maður fyrir sér, í anda þingkonunnar mætu, hvort hér sé ekki eitthvað óeðlilegt á ferðinni. Er ekki einkennilegt að kalla blóm ey? Eyjar tilheyra ekki einu sinni jurtaríkinu. Ég held reyndar, að í þessari nafngift hins ágæta blóms megi greina viðhorf af svipuðum toga og það karllæga viðhorf að konur megi vel kalla herra. Ég kýs að kalla það, í þessu samhengi, "landlægt" viðhorf. Landlægt viðhorf er þegar landfræðileg hugtök smita út frá sér yfir á alls óskylda hluti, svo sem plöntur og dýr. Hvað sóleyjarnar varðar er augljóst hvað átt hefur sér stað. Og það kemur enn betur í ljós þegar litið er á fyrri hluta nafnsins, sól. Á þetta blóm eitthvað sameiginlegt með sólinni, eitthvað frekar en með eyju. Svona lúmsk er landlægni orðræðunnar nú orðin!

Ég legg því til að blóminu sóley verði fundið annað og betur viðeigandi nafn og lýsi eftir tillögum þar um. Heitin þurfa að sjálfsögðu að vera í anda róttæks sóleyisma og verður enginn fífla-gangur liðinn þar!


Svandís Filippseyja?

Eitthvað minnir þetta nú á málaferli Svandísar Svavarsdóttur og fleiri úr þeim ranni. En það er sjálfsagt allt í lagi að einkavæða bara ef það er nógu langt í burtu. Þá þarf maður ekkert að skammast sín fyrir að taka þátt í leiknum.
mbl.is Efasemdir um lögmæti einkavæðingar orkuveitu á Filippseyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þróunarland??

Þegar einn af hverjum sex á ekki fyrir mat, þ.e. 17%, þá fer að verða hæpið að setja Bandaríkin í sama flokk og önnur velmegunarríki á Vesturlöndum.
mbl.is Fátækum ekki boðið upp á kalkún í New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sama Jón og séra Jón

Mannréttindabrot má vitanlega aðeins gagnrýna ef þau eru framin af andstæðingum Bandaríkjanna. Þegar góðvinir á borð við ofsatrúarmennina í Saudi-Arabíu eiga í hlut er hins vegar ástæðulaust að styggja þá!

Annars er ég ekki alveg sannfærður um að gagnrýni á refsingar frá ríkisstjórn, sem lætur myrða börn og vangefið fólk og að öllum líkindum fjölda saklauss fólks á hverju ári í eigin réttarkerfi, myndi hljóma neitt sérstaklega trúverðug.


mbl.is Bandaríkjastjórn gagnrýnir ekki refsingu fórnarlambs nauðgunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra fyrir Pamelu!! ...

(... Svo ég steli nú bloggvörumerki Sóleyjar Tómasdóttur).

Það er ánægjulegt að heyra af þessum mikla siðferðisstyrk nú á síðustu og verstu tímum.


mbl.is Pamela Anderson vill enga demanta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnrétti í orði kveðnu - Ojbjakk!

Get eiginlega ekki sleppt því að bæta aðeins við færslu mína um þetta mál frá því áðan:

Þetta þingmál ber fyrst og fremst vott um hversu fjarri veruleikanum sjálfum fólk getur verið og hversu aukaatriðin geta orðið mikilsverð þegar það hendir. Að mörgu leyti minnir þetta á málflutning margra af hægri væng stjórnmálanna, sem ég vil kenna við "frjálshyggju aukaatriðanna". Frjálshyggja aukaatriðanna er sú pólitík að álykta í sífellu um mál á borð við lögleiðingu eiturlyfja, sölu ríkisútvarpsins, niðurlagningu Sinfóníuhljómsveitarinnar eða annað þess háttar, en láta nægja að gjóa blinda auganu svona í áttina þegar ríkið veður í enn einar stórframkvæmdirnar á kostnað skattgreiðenda, í skjóli blekkinga og af fullkomnu ábyrgðarleysi. Frjálshyggja aukaatriðanna fer í taugarnar á mér vegna þess að hún ber vott um óábyrga forgangsröðun. Raunverulegt frelsi lifandi fólks er aukaatriði, en það sem öllu skiptir er að láta á sér bera.

Umrætt þingmál um hvað skuli kalla ráðherra er upprunnið af hinum væng stjórnmálanna en undir nákvæmlega sömu sök selt. Um það má raunar segja meira: Það á það sammerkt með áherslunni á "málfar beggja kynja" í nýju biblíuþýðingunni, að það snýr alls ekki að veruleikanum sjálfum. Þetta er ekki þingmál sem hefur að markmiði að breyta einu eða neinu í jafnréttismálum. Hér eru það aðeins orðin sem skipta máli. Ekki aðeins orð heldur titlar. Og ekki einu sinni titlar venjulegs fólks heldur aðeins virðingartitlar! Og hvað svo með jafnrétti venjulegra kvenna? Þær eiga kannski bara að éta kökur ef þær eiga ekkert brauð!

Ojbjakk!

Þetta mál ber vott um ákaflega einkennilega forgangsröðun. Tæpast er hægt að segja að Alþingi sé skammtaður of drjúgur tími til að ræða mál sem varða raunverulega hagsmuni lifandi fólks, raunveruleg efnahagsmál eða raunveruleg jafnréttismál. Og þá leggur stjórnarþingmaður fram mál sem líklegt er til að kalla á endalaust þvarg og tímaeyðslu í þingsölum. Og til hvers? Ekki til að efla alvöru jafnrétti. Því markmiðið með svona máli snýr alls ekki að jafnrétti. Það snýr að jafnrétti í orði kveðnu!


Mikið réttlætismál!

Ekki er annað hægt en taka undir þau orð þingkonunnar að það sé "mikið réttlætismál að þessum starfsheitum verði breytt." Það er í raun alveg óskiljanlegt að þær konur sem gegnt hafa ráðherraembættum til þessa skuli hafa komist frá því óskaddaðar. Tæpast er hægt að hugsa sér önnur mikilvægari né brýnni mannréttindamál nú um stundir.

Að auki legg ég til, og hvet baráttukonuna til að taka upp það mál einnig, og hið snarasta, að gert verði óheimilt að nota orðið "maður" um kvenfólk. Tæpast er hægt að ímynda sér neitt meira særandi fyrir konu en að vera kölluð maður!

Það er greinilegt að nýr tónn hefur nú verið sleginn í mannréttinda- og kvenréttindaumræðu hérlendis. Við bíðum spennt eftir næstu snilldarhugmynd!


mbl.is Vill nýtt starfsheiti fyrir ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþefur í stjórnarráðinu?

Alltaf er þetta sama sagan þegar hlutlaust mat er lagt á efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda. Ráðherrarnir fara í fýlu svo óþefurinn berst langar leiðir úr stjórnarráðinu.

Mikið er annars ánægjulegt að greiningarfyrirtækin skuli ekki vera á launum hjá íslenska ríkinu!


mbl.is Mat á lánshæfi ríkisins tengist samdrætti á verðbréfamörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Nóv. 2007
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband