Hafa stjórnvöld glatað lögmæti sínu?

Eru stjórnvöld, sem láta undir höfuð leggjast að gæta hagsmuna alls almennings lögmæt stjórnvöld?

Eru stjórnvöld sem einblína á eitt tiltekið, fremur léttvægt atriði, en fórna lífi og heilsu almennings til langrar framtíðar, lögmæt stjórnvöld?

Eru stjórnvöld sem fórna hagsmunum ungu kynslóðarinnar, eyðileggja framtíðarmöguleika hennar, lögmæt stjórnvöld?

Eru stjórnvöld sem eyðileggja atvinnumöguleika þúsunda vísvitandi með aðgerðum sínum lögmæt stjórnvöld?

Eru stjórnvöld sem vaða áfram með ákvarðanir sem grundvallast á fjarstæðukenndri óskhyggju og ímyndunum lögmæt stjórnvöld?

Eru stjórnvöld sem taka ákvörðun um að leggja í rúst það atvinnulíf sem eftir er, vegna þess að þau sjálf eru ófær um að sjá til þess að hindra að veirusmit sýki fjölda alvarlega veikra og aldraðra sjúklinga, lögmæt stjórnvöld?

Ég tel auðsætt að slík stjórnvöld eru ekki lögmæt. Og sé svo ekki, ber almenningi þá einhver skylda til að fylgja tilskipunum þeirra? 


mbl.is Ríkisstjórnin ræðir tillögur Þórólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hvernig myndir þú haga öllum þessum málum ef að þú fengir öllu ráðið?

Að leyfa öllum að hafa sín fyrirtæki opin án skilyrða?

Jón Þórhallsson, 30.10.2020 kl. 11:52

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég myndi leggja alla áherslu á að verja það fólk sem er í raun og veru í hættu vegna þessarar pestar. Það er fólk yfir sjötugu. Og þá er ég að tala um að verja það í raun og veru, ekki bara segjast vera að því. Ég myndi líka gæta þess að hafa næga afkastagetu á spítölunum til að taka á móti þeim sem veikjast, til dæmis með því að nýta þjónustu einkastofnana sem boðin hefur verið fram mánuðum saman, og sem geta hæglega tekið við sjúklingum sem teppa nú spítalana en þurfa ekki að vera þar. Ég myndi hafa að markmiði að tryggja líf og heilsu fólks í öllu samfélaginu til langs tíma, ekki aðeins taka ákvarðanir í panikk á grundvelli fjölda smita af einni pest, sem er brot af öllu því sem getur valdið fólki heilsutjóni og dregið það til dauða.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 12:11

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þú klikkar ekki, Þorsteinn.

En í ljósi spurningalistans þíns: Á þetta ekki við um stjórnvöld í næstum öllum Evrópuríkjum, USA og víðar þar sem þjónusta einkafyrirtækja í heilsugæslu er í hávegum höfð? Geturðu bent á eitt land í heiminum sem hefur farið þá leið sem þú segir að sé hin eina rétta?

Kristján G. Arngrímsson, 30.10.2020 kl. 13:07

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Stjórnvöld í flestöllum ríkjum hafa fylgt stórskaðlegri stefnu í þessum málum. En það að fleiri fylgi skaðlegri stefnu réttlætir ekki stefnuna.

Samkvæmt þeim fréttum sem ég hef séð virðist Florida-ríki í Bandaríkjunum hafa tekið upp skynsamlegri stefnu í þessum málum fyrir mánuði síðan.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 13:22

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Tek undir með þér Þorsteinn.

Stjórnvöld hafa yfirgefið þau gildi, sem töldust til sjálfsagðra mannréttinda fyrir skemmstu, og þau voru kosin til að verja, -hafa í raun glatað lögmæti sínu og umboði.

Fárið gegn pestinni virðist ráða lögum og lofum um allan heim og á að réttlæta allt ólögmæti. Því miður fylgir fjöldinn hér á landi. Ég dáist af blogginu þínu fyrir óbilandi elju og rökfestu við að benda á óskapnaðinn.

Magnús Sigurðsson, 30.10.2020 kl. 13:35

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nú virðist fólk sem daglega tekst á við fárið margt hvert vera sammála þeim aðferðum sem verið er að beita, sbr. pistil Steinunnar Þórðardóttur (sjá hlekk hér að neðan). Teljið þið að þetta fólk sé meðvirkt í "vitleysunni" eða einfaldlega viti ekki betur? Nú er um að ræða t.d. yfirlækni á Landakoti og fleiri.

Sjá: https://www.man.is/frettir/steinunn-yfirlaeknir-segir-heilbrigdisstarfsfolk-hafa-lyft-grettistaki-svona-er-stadan-i-dag/

Kristján G. Arngrímsson, 30.10.2020 kl. 14:22

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eða er Steinunn þessi kannski sammála ykkur í raun og veru og ég bara að misskilja hana?

Kristján G. Arngrímsson, 30.10.2020 kl. 14:23

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Mikill meirihluti fólks er meðvirkur í vitleysunni. Mikill meirihluti fólks virðist trúa því að hægt sé að vinna bug á bráðsmitandi veirusjúkdómi með því að bæla hann tímabundið niður. Mikill meirihluti fólks virðist ímynda sér að bóluefni sé rétt handan við hornið, þegar því fer fjarri. Mikill meirihluti fólks virðist trúa því að það að valda atvinnuleysi tugþúsunda, eyðileggja fyrir menntun barna og ungmenna og gera ríkið svo skuldugt að það mun ekki geta staðið almennilega undir nauðsynlegri þjónustu í framtíðinni skipti bara engu máli. Ástæðan er sú að fólk sér ekki hlutina í víðu samhengi.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 14:30

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Steinunni virðist efst í huga að heilbrigðiskerfið verði ekki ofurliði borið, teljið þið ef til vill að það sé einfaldlega óhjákvæmilegt að heilbrigðiskerfið sligist? Væri fróðlegt að sjá ykkur bregðast beint við því sem Steinunn beinlínis segir.

Kristján G. Arngrímsson, 30.10.2020 kl. 14:48

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Við hver? Ég tala fyrir mig, ekki aðra.

Það er skammt síðan forstjóri LSH skilaði minnisblaði til stjórnvalda þar sem hann fullyrti að spítalinn réði við álagið, jafnvel miðað við svartsýnustu spár.

Hinn raunverulegi flöskuháls er á endanum fjöldi öndunarvéla. Af þeim eru margir tugir til, upp undir hundrað held ég. Á hverjum tíma eru örfáar öndunarvélar í notkun. Spítalarnir eru fullir af fólki sem ætti ekki að vera þar heldur á öldrunarstofnunum. Það er ósköp eðlilegt að læknar innan spítalans upplifi mikið álag, en það álag er vegna skipulagsleysis í kerfinu, ekki vegna þess að spítalinn geti í raun og veru ekki ráðið við verkefni sín ef skipulagið væri í lagi. 

Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 15:07

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég átti við þig og Magnús, sem tekur undir með þér í 5. athugasemd, en auðvitað svarar hver fyrir sig.

Kristján G. Arngrímsson, 30.10.2020 kl. 15:20

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það eru blessunarlega fleiri sem reyna að horfa á hlutina í samhengi. Magnús er einn þeirra.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 15:29

13 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hvers vegna þurfa takmarkanir á ferðafrelsi að eyðileggja atvinnulíf? Það er hægt að halda úti fullt af rekstri þó ferða- og samkomutakmarkanir séu í gildi.

Afþreyingarðiðnaðurinn er kannski eitthað sem má missa sín hvort eð er. Ég get ekki séð hvaða verðmæti eru fólgin í því að hanga á börum langt fram á nótt.

Kannski ætti fólk að nýta tímann í að gera eitthvað uppbyggilegt í stað þess að glápa á sápuóperur eða þvælast út um allt og vita ekkert hvert það er að fara. Það gæti komið heilmikil nýsköpun út úr því.

Theódór Norðkvist, 30.10.2020 kl. 15:33

14 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ertu í alvöru að meina það sem þú segir Theódór?

Trúir þú því í alvöru að það hafi ekki áhrif á atvinnu fólks þegar fyrirtækjum er upp til hópa gert að hætta starfsemi vegna þessara fjöldatakmarkana?

Finnst þér í alvöru að það fólk sem lifir af ferðaþjónustu og afþreyingu megi bara "missa sín"? 

Og heldur þú í raun og veru að með því að loka fólk inni horfi það síður á sápuóperur?

Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 15:42

15 Smámynd: Theódór Norðkvist

Slappaðu af, ég er bara að segja að það geti nú kannski önnur starfsemi og gagnlegri, komið í staðinn.

Svo sparar fólk pening ef það þarf ekki að borga kortið í líkamsræktarstöðina, sundhallir, eða drykkina á börunum. Þannig að tapið verður kannski ekki svo mikið. Já ég veit, flæði fjármagnsins og allt það.

Þið frjálshyggjumennirnir viljið að hinir yngri verndi þá eldri með því að smita þá. Hvernig hjálpar það atvinnulífinu?

Það má hver sem er horfa á sápuóperur mín vegna, ég tók þær bara sem dæmi.

Ég segi það bara fyrir mig sjálfan, að þessi pest hefur sýnt mér að það er kannski ekki svo mikil þörf á því að ferðast, þó ég sakni þess að sjálfsögðu. Þetta ástand hefur hvatt mig til að endurmeta marga hluti.

Theódór Norðkvist, 30.10.2020 kl. 17:45

16 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, þú vinnur eflaust hjá ríkinu og hefur það fínt. Og þér er bersýnilega nákvæmlega sama um lífsafkomu meðbræðra þinna.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 18:20

17 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hverskonar fyrirtækjum hefur verið gert að loka að nauðsynjalausu?

Hefðu þessi fyrirtæki ennþá alla sína viðskiptavini - og tekjur - ef þeim væri leyft að starfa?

Um daginn var líkamsræktarstöðvum leyft að starfa að hluta, en viðskiptavinir amk. einnar þeirra urðu fúlir og stöðin baðst afsökunar og lokaði.

Ég efast um að þú hafir raunhæfar hugmyndir um hvernig hlutirnir gætu gengið betur fyrir sig. (Ég er alls ekki að segja að mínar hugmyndir séu örugglega betri en þínar).

Kristján G. Arngrímsson, 30.10.2020 kl. 18:46

18 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hverslags dónaskapur er þetta? Bara af því að ég vil ekki leyfa banvænni veiru að ganga lausri, þá er mér sama um afkomu meðbræðra minna?

Ef það væri hægt að saka einhverja um skeytingarleysi gagnvart lífum annarra, þá eru það nú helst frjálshyggjumenn eins og þig og stjórnleysingjar sem eru að berjast gegn sóttvörnum.

Ég vinn ekki hjá ríkinu og þér kemur ekkert við hvar ég vinn. Hafðu það!

Theódór Norðkvist, 30.10.2020 kl. 18:59

19 Smámynd: Theódór Norðkvist

Kristján, Þorsteinn þykist vita betur en allir sem koma að sóttvörnum samanlagt, hvernig á að haga þeim. Eigum við ekki bara að skipa hann sem alvaldan yfir sóttvörnum? Eða eigum við að leyfa íslensku þjóðinni að lifa aðeins lengur? cool

Ekki gera þér vonir um að hann komi með einhvern rökstuðning, annað en ásakanir út í loftið og endurtekningar á sömu dellunni.

Theódór Norðkvist, 30.10.2020 kl. 19:02

20 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hvað áttu við með "að nauðsynjalausu" Kristján?

Theódór: Það að reyna að finna skynsamlegar leiðir til að takast á við þetta hefur nákvæmlega ekkert með "frjálshyggju" að gera. Það snýst einfaldlega um að loka ekki augunum fyrir náttúrulögmálunum.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 19:38

21 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þorsteinn: ég átti við fyrirtæki sem að þínu mati gætu að skaðlausu haldið starfsemi sinni áfram þrátt fyrir faraldurinn. Afsakaðu ónákvæmt orðalag.

Theódór: já, bloggarinn hérna er mikill besservisser og gefur lítið fyrir andmæli, ég kannast við það. Næstum öll þjóðin er ósammála honum skv. nýrri könnun - án þess að það í sjálfu sér geri orð hans ómarktæk. En mér tekst ekki að fá neinn botn í málflutning Þorsteins og er eiginlega kominn á þá skoðun að þetta sé sennilega innantómt "bullshit" eins og Harry Frankfurt útskýrði það hugtak svo eftirminnilega. 

Sjá um "bullshit" skv. Frankfurt: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1033150/

Kristján G. Arngrímsson, 30.10.2020 kl. 20:09

22 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Í dag var ákveðið að setja á 10 manna fjöldatakmörk. Þetta merkir einfaldlega að fjöldi fyrirtækja verður að loka, bæði vegna þess að þau geta ekki tekið á móti nægilega mörgum viðskiptavinum til að halda starfsemi sinni gangandi, og/eða vegna þess að þau geta ekki starfað ef aðeins 10 starfsmenn mega vera á staðnum í einu. Er starfsemi þessara fyrirtækja með þeim hætti að smithætta sé þar mikil? Ég veit ekki betur en þau smit sem hafa verið að koma upp undanfarið hafi verið að koma upp innan heilbrigðisstofnana fyrst og fremst. Og að ástæðan sé óstjórn á þeim stofnunum. Þau hafa ekki verið að koma upp í gæludýraverslunum, á hárgreiðslustofum eða í raftækjaverslunum. En vitanlega er hægt að halda því fram að alls staðar þar sem fleiri en einn koma saman sé einhver möguleiki á að fólk smitist. Og samkvæmt því væri væntanlega réttast að skella samfélaginu öllu í lás um ófyrirsjáanlega framtíð. Eflaust eru margir hrifnir af því. Meðal annars þeir sem telja sig þess umkomna að dæma flest það sem fólk aðhefst sem "ónauðsynlegt". Og þegar við leggjum það viðhorf saman við algera vangetu til að sjá hlutina í samhengi fáum við vitanlega niðurstöðu sem fyrir þessu fólki segir sig algerlega sjálf!

Staðreyndin er hins vegar sú að hér er um bráðsmitandi veirusjúkdóm að ræða. Hann dreifir sér á endanum um allt samfélagið. Svo lognast hann út af. Við höfum val um það hvort við leggjum samfélagið í rúst til að reyna að hægja á útbreiðslunni eða hvort við einbeitum okkur að því að verja þann takmarkaða hóp sem er í raunverulegri hættu vegna sjúkdómsins. Við tökum hins vegar ekki náttúrulögmálin úr sambandi. Það breytir engu hvort 5% eða 95% landsmanna trúa því að hægt sé að taka þau úr sambandi. Það er ekki hægt að gera það. En ef við verjum hópinn sem er líklegur til að veikjast alvarlega lágmörkum við um leið álag á heilbrigðiskerfið, fækkum dauðsföllum vegna sjúkdómsins og komum í veg fyrir heilsubrest og dauða fjölda annarra. Mér finnst til mikils að vinna að reyna að gera þetta. Ég átta mig alls ekki á því hvað er svona erfitt við að skilja þetta.

Sóttvarnaryfirvöld hér, og væntanlega 95% þjóðarinnar, eru hins vegar ósammála því að takast á við þennan vanda af raunsæi. Enda er því blekkingunum stöðugt haldið að fólki; ef við bara gerum þetta í tvær vikur náum við að "losna við" veiruna. Og yfirvöld haga aðgerðum sínum í takt við það. Afleiðingarnar sjáum við í því að útbreiðsla sjúkdómsins er langmest meðal einmitt þess hóps sem viðkvæmastur er. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé með ráðum gert. Það er ekki viljandi, heldur er skeytingarleysi og ábyrgðarleysi um að kenna. 

Núverandi aðgerðir munu valda miklum fjölda óþarfa dauðsfalla, þær munu dæma þúsundir, jafnvel tugþúsundir til fátæktar (fólk sem vinnur við eitthvað "ónauðsynlegt" vitanlega), þær munu leggja framtíð fjölda ungmenna í rúst og þær munu verða til þess að skerða verulega getu samfélagsins til að sinna nauðsynlegri þjónustu, þar með talið heilbrigðisþjónustu, um langa hríð.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 20:43

23 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég held að það sem erfiðast er að skilja sé að það sé vísvitandi verið að blekkja einhvern. Eru sóttvarnayfirvöld þá að vinna af óheilindum? Af hverju ættu þau að vera það? (Samsæriskenningar um að þau séu á mála hjá lyfjafyrirtækjum hljóma, þú fyrirgefur, soldið paranoid og ekki hægt að trúa þeim).

Ég er eiginlega sammála þeim afleiðingum fársins sem þú tíundar í lokamálsgreininni, en ég held að þetta geti orðið niðurstaðan sama hvaða "baráttuaðferð" er beitt gegn fárinu. Og það er sennilega allra erfiðast að skilja hvers vegna þú ert svona sannfærður um að það blasi við að ekki sé verið að takast á við vandann af raunsæi heldur sé verið að beita blekkingum. Hver ætti tilgangurinn að vera með því?

Og hvernig þú færð út að það sé augljóst að þær aðferðir sem þú mælir með myndu skila betri árangri er mér fyrirmunað að skilja - enda útskýrirðu aldrei þessar aðferðir nákvæmlega heldur bara með einhverjum almennum hugtökum á borð við fókuseraðar, markvissar og raunsæjar. Auðvitað geta allir verið sammála því að aðferðir eigi að vera þetta allt, en hvað í þessu felst er allt annar handleggur og maður getur auðveldlega verið þeirrar skoðunar að núverandi aðgerðir séu eins markvissar og raunsæjar og framkvæmanlegt getur talist. Þú getur ekki staðhæft að "þínar" aðgerðir myndu skila betri niðurstöðu fyrr en þær niðurstöður liggja fyrir. 

Og svo þegar einhverjum dettur í hug að andmæla þér svararðu af yfirlæti og hroka og hjólar í manninn en svarar engu efnislega. Eins og ég hef sagt áður er mér hulin ráðgáta að ég skuli vera að karpa þetta við þig. Ekki af því að ég sé svo sannfærður um að þú hafir rangt fyrir þér (það veit enginn því að málflutningur þinn er svo óáþreifanlegur og almennur) heldur vegna þess að þetta er orðið ferkar endurtekningasamt eins og Theódór benti réttilega á. Vill til að ég hef útaffyrir sig gaman að samræðum, jafnvel þótt þær snúist ekki um neitt sem talist getur áþreifanlegt og "inconsequential" (hvernig segir maður það á íslensku?)

Kristján G. Arngrímsson, 30.10.2020 kl. 21:21

24 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

"consequential" átti þetta nú að vera í lokin - eitthvað sem hefur afleiðingar sem skipta máli. Ég á við að þessar umræður séu á engan hátt "consequential".

Kristján G. Arngrímsson, 30.10.2020 kl. 21:24

25 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er ekki hægt að halda því fram að einhver sé að blekkja einhvern Kristján, ekkert frekar en það er hægt að halda því fram að galdrafárið hafi verið samsæri einhvers til að blekkja einhvern.

Ég skal gera eina tilraun enn til að skýra það sem ég á við með markvissum aðgerðum. Ef hún tekst ekki er ég eflaust bara svona vonlaus í að útskýra hluti:

1. Veirusjúkdómur af þessu tagi er þess eðlis að hann dreifir sér á endanum um allt samfélagið.

2. Bóluefni er ekki að fara að leysa vandann fyrr en í allra fyrsta lagi eftir ár, og þá að öllum líkindum ekki nema að takmörkuðu leyti.

3. Við vitum að sjúkdómurinn veldur flestum engum skaða, en fólk yfir sjötugu er í umtalsverðri hættu af að deyja úr honum.

4. Þegar sjúkdómurinn hefur dreift sér nægjanlega í gegnum samfélagið dregur mjög úr útbreiðslu hans - hann fjarar út.

5. Almennar aðgerðir til að hægja á útbreiðslunni valda gríðarlegu samfélagslegu tjóni til langrar framtíðar.

Af þessu leiðir að markvissar aðgerðir hljóta að felast í tvennu. Í fyrsta lagi að beita öllum ráðum til að hindra að sjúkdómurinn breiðist út í þeim hópi sem er í raunverulegri hættu. Í öðru lagi að leyfa sjúkdómnum að breiðast sem hraðast út meðal þeirra sem eru ekki í hættu.

Það er núna sem við þurfum að takast á við vandann. Við getum ekki haldið áfram að bíða og sjá hvort einhver niðurstaða liggur fyrir, ekkert frekar en að við bíðum með að hringja í slökkviliðið þar til við höfum fengið niðurstöðu um hvort húsið brenni til grunna. 

Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 21:40

26 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Gott og vel. En þú ert að gefa þér að hægt sé að gera samtímis bæði það sem þú nefnir "í fyrsta lagi" og svo það sem þú nefnir "í öðru lagi". Ég held að þeir sem ráða ferðinni í sóttvörnum hérlendis - og hún Steinunn yfirlæknir sem ég vitnaði í áðan - séu ósammála þér um það. Það sé ekki hægt að ná fyrra markmiðinu nema með því að reyna alls ekki að ná því síðarnefnda. Og þá að ef maður reynir að ná síðara markmiðinu (sem þér er mjög annt um að ná) muni það óhjákvæmilega koma í veg fyrir að fyrra markmiðið náist (sem allir eru sammála um að stefna beri að öðru fremur).

Ég hef hvergi séð útskýrt - hvorki af þér né öðrum - hvernig nákvæmlega eigi að vera hægt að ná báðum markmiðunum sem þú tilgreinir. Ég átta mig ekki einu sinni á því hvernig ætti að fara að því að útskýra það á skiljanlegan og sannfærandi hátt.

Kristján G. Arngrímsson, 30.10.2020 kl. 22:07

27 Smámynd: Theódór Norðkvist

    • Hugsanlega rétt.

    • Hugsanlega rétt.

    • Þetta atriði er umdeilt, margir tala um að ungt fólk geti orðið fyrir varanlegum skaða, sem kemur fram síðar á lífsleiðinni.

    • Gögn til rökstuðnings þessu máttu gjarnan leggja fram, t.d. tölfræðileg, eða sagnfræðileg - gerðist þetta í fyrri flensufaröldrum (án bóluefnis)?

    • Kannski, en verður tjónið minna með engum eða vægari aðgerðum?

    Hvað næst síðustu málsgreinina í athugasemd þinni hér á undan varðar, þá er hún svolítið dæmigerð fyrir veikleikann í málflutningi þínum. Þú skýrir aldrei hvernig eigi að vernda hina viðkvæmu. Ég hef hvað eftir annað vakið athygli þína á því (með litlum árangri) að þeir sterku annast þá viðkvæmu.

    Starfsfólk í heilbrigðisþjónust til dæmis er að stærstum hluta ungt og hraust fólk. Það verndar tæplega hina viðkvæmu ef það er upp til hópa smitað sjálft.

    Er ekki bara best að viðurkenna að við vitum of lítið um þessi mál til að vera með stórar fullyrðingar. Ég er ekki að segja að menn megi ekki hafa sína skoðun. Ég myndi hinsvegar aldrei gagnrýna heilaskurðlækni fyrir hvernig hann sker upp sína sjúklinga og segja honum að hann eigi að gera svona eða hinsegin.

    Ég myndi ekki einu sinni segja smiðunum sem eru að taka þakið í gegn hjá mér, hvernig þeir eigi að gera það, þó flækjustigið á þakviðgerðum sé bara brot af flækjustiginu í heilaskurðaðgerðum. Einfaldlega vegna þess að ég veit ekki mikið um þakviðgerðir þó ég sé sennilega með meiri og almennari menntun en flestir smiðir og enn minna um heilaaðgerðir.

    Theódór Norðkvist, 30.10.2020 kl. 22:24

    28 Smámynd: Theódór Norðkvist

    Punktalistinn í byrjun kom fram hjá mér sem númeraður listi, en þarna var ég að svara liðum 1 - 5 hjá Þorsteini, svo það sé ljóst. Handónýtt þetta bloggkerfi hjá Mbl, ég þarf að taka það í gegn og rukka síðan stórfé fyrir.laughing

    Theódór Norðkvist, 30.10.2020 kl. 22:26

    29 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

    Það er vitanlega hægt að ná báðum markmiðunum Kristján ef beitt er réttum aðferðum. Það er hægt að vernda fólk fyrir sýkingum ef vandað er nægilega vel til verka. Og það er algerlega nauðsynlegt að allt sem mögulegt er sé reynt til þess. Það er ekki annað í boði. Hinn valkosturinn er það sem við sáum eiga sér stað í Svíþjóð, og reyndar fleiri löndum, í upphafi faraldursins. Í Svíþjóð brást verndin á hjúkrunarheimilunum og afleiðingin varð þúsundir dauðsfalla meðal íbúa þar. Hafðu í huga að í seinni bylgjunni hafði þetta gengið vel. Álíka margir höfðu smitast og í fyrri bylgjunni, en aðeins einn látist, á móti tíu í fyrri bylgjunni. Svo kom smitið upp á Landakoti, og það gerðist vegna þess að sóttvarnirnar brugðust. Hólfaskiptingunni, sem átti að vera til staðar var ekki framfylgt.

    Og af hverju ætti það að ganga gegn síðara markmiðinu? Meginhluti fólks vinnur ekki við aðhlynningu aldraðra. Ein leiðin er að leita markvisst eftir fólki sem þegar er ónæmt til að vinna þessi störf. Önnur leið er að einangra starfsfólkið sem er í daglegri umgengni við þá viðkvæmu. Enn önnur leið er að beita tíðum skimunum (það var ekki gert, og ekki fyrr en eftir að hópsýkingin kom upp sem loks var farið að huga að því).

    Ég er ekki að segja að það sé auðvelt að gera þetta, ég er að benda á að það er hægt. Og það er nauðsynlegt. Og þá finnst mér það ekki réttu viðbrögðin að staðhæfa bara að það sé ómögulegt. Réttu viðbrögðin eru að leita réttu leiðanna til að framkvæma það.

    Að lokum, hvers vegna er mikilvægt að reyna að láta þetta ganga sem hraðast yfir? Jú, það er einmitt vegna þess að þær verndaraðgerðir sem þarf að beita geta ekki gengið endalaust, bæði vegna starfsfólksins og ekki síður vegna gamla fólksins sjálfs. Að öðru leyti skiptir það í sjálfu sér ekki máli hvort faraldurinn gengur hratt eða hægt yfir. Hraðinn er aðeins leið til að tryggja verndina sem best.

    Vitanlega vitum við ekki allt Theódór. En við vitum með hvaða hætti veirufaraldrar dreifast, við vitum (ef við tökum niður sólgleraugun) hvernig málum er háttað með bóluefnin. Þau bóluefni sem lengst eru komin hindra fólk ekki í að smitast og sýkja aðra, heldur verja þau aðeins þá bólusettu fyrir alvarlegri afleiðingum sjúkdómsins. Krafan til bóluefna er 50% virkni, og enn eru uppi verulegar efasemdir um að bóluefni sem hindra smit muni yfirleitt koma til sögunnar. Við vitum að það eru einhver einstök tilfelli um að ungt fólk geti veikst alvarlega, en þau eru ekki mörg, og við vitum að í aldurshópnum 20-50 ára er dánartíðni fram til þessa 1/5000 samkvæmt CDC, og að hún fer lækkandi, það sjáum við af gögnum. Við vitum einnig að áður en bóluefni komu til sögunnar gengu faraldrar yfir með náttúrulegum hætti og fjöruðu að lokum út.

    Spurningin er á endanum þessi: Hvernig lágmörkum við fjölda dauðsfalla, beinna og óbeinna, í lengd og bráð, sem leiðir af þessum sjúkdómi?

    Rökin sem ég er að rekja hér hafa verið sett fram af ýmsum af fremstu sérfræðingum heims í þessum málum. Mér finnst þau sannfærandi. Ég hef ekki séð sannfærandi rök fyrir því hvers vegna núverandi stefna ætti að duga til að ná þessu markmiði. Enda sjáum við afleiðingarnar. Veiran breiðist út meðal viðkvæmasta aldurshópsins í meira mæli en meðal annarra, með þeim afleiðingum sem það hefur. Við horfum daglega upp á skipbrot þessarar stefnu. Og hún bíður skipbrot einfaldlega vegna þess að hún er byggð á sandi.

    Þorsteinn Siglaugsson, 30.10.2020 kl. 23:28

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Um bloggið

    Hitt og þetta

    Höfundur

    Þorsteinn Siglaugsson
    Þorsteinn Siglaugsson

    Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

    Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

    Apríl 2024
    S M Þ M F F L
      1 2 3 4 5 6
    7 8 9 10 11 12 13
    14 15 16 17 18 19 20
    21 22 23 24 25 26 27
    28 29 30        

    Nýjustu myndir

    • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
    • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
    • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
    • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
    • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

    Heimsóknir

    Flettingar

    • Í dag (16.4.): 6
    • Sl. sólarhring: 6
    • Sl. viku: 20
    • Frá upphafi: 287238

    Annað

    • Innlit í dag: 6
    • Innlit sl. viku: 20
    • Gestir í dag: 5
    • IP-tölur í dag: 5

    Uppfært á 3 mín. fresti.
    Skýringar

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband