Feitur þjónn er ekki mikill maður

Við Íslendingar eigum nú val um nokkra kosti. Einn er að ganga að tilboði Norðmanna um aðstoð í efnahagskreppunni. Annar er að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Sá þriðji er að selja Rússum áhrifasvæði hér fyrir lán á hagstæðum kjörum.

Með öðrum orðum: Alþjóðastofnun án sértækra hagsmuna, grannríki með sameiginlega hagsmuni eða stórveldi með eigin hagsmuni og ólíka okkar.

Enginn vafi er á því, að Geirs Haarde verður minnst í sögunni sem mannsins sem stóð í brúnni þegar þjóðarskútan steytti á skeri. Þar skiptir ekki máli að því fer fjarri að hann sé þar einn ábyrgur.

En vill hann líka láta minnast sín sem mannsins sem seldi þjóð sína á vald hættulegu stórveldi sem svífst einskis til að vinna að framgangi árásargjarnrar utanríkisstefnu sinnar?

Ég efast um það.

Ég hugsa að hvergi fáist betri leiðarvísir út úr þeirri valkreppu sem íslensk stjórnvöld standa nú frammi fyrir en í Íslandsklukku Halldórs Laxness:

"Ef varnarlaus þjóð hefur mitt í sinni ógæfu borið gæfu til að eignast mátulega sterkan óvin mun tíminn gánga í lið með henni einsog því dýri sem ég tók dæmi af. Ef hún í neyð sinni játast undir tröllsvernd mun hún verða gleypt í einum munnbita. Ég veit þið hamborgarmenn munduð færa oss íslenskum maðklaust korn og ekki telja ómaksvert að svíkja á oss mál og vog. En þegar á Íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði. Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima.“


mbl.is Mestu mistökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þessi magnaði bókarkafli hefur lengi verið mér hugstæður sem og öll þessi bók. Hún er óræk sönnun fyrir þeirri hneigð sögunnar til að endurtaka sig.

Árni Gunnarsson, 10.10.2008 kl. 09:43

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Magnaður bókarkafli, ekki spurning. Ætli maður fari ekki bara að dusta rykið af Laxnesinu.

Eitt vil ég þó vita og spyr ég þig sem hagfræðing. Lán IMF eru langt frá því að vera án skilmála. IMF á hagsmuna að gæta og þeir munu setja okkur leikreglur, jafnvel stífari en rússar. Skoði ég lönd sem IMF hefur "bjargað" sé ég ekkert nema eymd, sviðna jörð og sjálfsstæðisskerðingu. Ég er ekki hagfræðingur og hef kannski ekki nógu mikið lesið um þennan sjóð, en værum við ekki að gera hrikaleg mistök með því að ganga þeim á hönd? Hverjar yrðu afleiðingarnar fyrir íslendinga? Ef við tökum boði rússa getum við þó nýtt okkar nýja vin á taflborði alþjóðastjórnmála. Eða er ég að skilja þetta vitlaust?

Villi Asgeirsson, 10.10.2008 kl. 11:25

3 Smámynd: Þorgeir Ragnarsson

Við vitum ekki nákvæmlega hvað fór á milli íslenskra og breskra stjórnvalda en við vitum eitt: Bresk stjórnvöld fóru með gífuryrði, lygar (þ.e. að landið væri gjaldþrota, það er það víst ekki fyrr en öruggt er hvað skuli borga og hvað sé til) og hótanir. Íslensk yfirvöld voru ekki með gífuryrði, eðlilega vilja þau lítið fullyrða um hver bótaskyldan er meðan það hefur ekki einu sinni verið fullkannað fyrir hve miklu eignir Landsbankans duga o.s.fr.

Tímasetning árásarinnar á Kaupþing er áhugaverð. Íslensk yfirvöld voru í örvæntingu að reyna að bjarga greiðslukerfi landsins frá hruni, að stabilisera neyðarástand. Bretum var í lófa lagið að ræða málin við Íslendinga ÓOPINBERLEGA og ræða síðan málin sín í milli. Þeir notuðu fyrsta tækifærið til þess að hjóla í fjölmiðla um leið og íslensk yfirvöld höfðu gefið í skyn að athuga þyrfti málið. Auðvitað var tilgangurinn sá að hámarka skaða Íslands til þess að þvinga okkur síðan til þess að hlýða. Ímyndið ykkur ekki eina sekúndu að ummælin hafi verið stjórnlaus reiðiviðbrögð. Breska ríkið hefur margfalt verri hluti á samviskunni en að neyða Ísland í gjaldþrot.

Því hefur verið haldið fram að seðlabankar Bandaríkjanna og Bretlands hafi tekið sig saman um að neita íslenska ríkinu um lán. Ef það þvingar okkur í faðm (safapressu?) IMF hvaða skilyrði skyldu þá verða sett þar? Kannski að við verðum að punga út því sem bretar heimta? Kæmi á óvart.

Þorgeir Ragnarsson, 10.10.2008 kl. 16:55

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Bretum var í lófa lagið að ræða málin óopinberlega, segir þú Þorgeir. En var það ekki einmitt það sem Darling gerði? Því miður óttast ég að að fall Kaupþings eigi sér rætur í því að maður sem kunni ensku illa hafi verið að reyna að tjá sig og farist það óhönduglega. Svo brást enginn við þegar yfirlýsingarnar komu fram ytra.

En IMF. Þar verðum við að sjá hvað býðst. Mig grunar að það verði mun skárri kostur en rússneski björninn.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.10.2008 kl. 22:45

5 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þorsteinn, maður skellir ekki terroristastimpli á vinaþjóð að því maður er nástum því, nokkurn vegin, þannig lagað viss um að maður hafi skilið símtalið rétt. Sé enska Árna þetta slæm, hlýtur Alistair að hafa heyrt það og þá hefði hann átt að koma málinu á hreint. Ekkert getur afsakað framkomu breta. Ekkert.

Og um IMF. Sé það í spilunum eigum við skilyrðislaust að fá að vita nákvæmlega hvað hangir á spýtunni. Komi þar eitthvað fram sem skaðar sjálfstæði þjóðarinnar verðum við að segja nei. Þar fyrir utan hefur "rússneski björninn" ekki reynst okkur svo illa gegn um tíðina.

Villi Asgeirsson, 11.10.2008 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 287250

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband