Ýmislegt ágætt, en ...

Í þessum tillögum er ýmislegt jákvætt. Það er jákvætt að vinda ofan af skattahækkunum síðustu ára og gera gjaldþrota fólki kleift að skila lyklunum að eignum sínum.

Í tillögurnar vantar hins vegar alveg áætlun um uppskurð í rekstri ríkisins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki beinlínis verið öflugur á þeim vettvangi fram til þessa svo meðan ekki er að sjá trúverðuga áætlun um þetta er ekki minnsta ástæða til að taka mark á almennum yfirlýsingum þar að lútandi. Sjálfstæðisflokkurinn verður einfaldlega að leggja fram áætlun um uppskurð og hagræðingu í ríkisrekstrinum með skýrum markmiðum og áherslum. Þetta er lykilatriði í huga allra ábyrgra kjósenda.

Svo virðist sem flokkurinn sé því miður enn við það heygarðshornið að telja ríkið eina aðilann sem geti drifið atvinnulífið áfram. Þetta má sjá á áformum um að stórauka útgjöld ríkisins til atvinnubótavinnu, selja orku á útsölu, svo hægt sé að djöflast bara eitthvað með skóflu og mjólka svo lífeyrissjóðina ofan í kaupið til að geta pumpað nægum peningum í hítina. Svona sósíalisma munu frjálslyndir hægrimenn vitanlega aldrei styðja.

Að lokum lítur ekki út fyrir að flokkurinn verði fær um að vinda ofan af kvótaúthlutunarvandanum. Íhaldsstefna í stjórnmálum snýst um að vernda réttindi einstaklinganna gagnvart ásælni ríkisvaldsins og gæðinga þess. Sem kunnugt er grundvallaðist úthlutun kvótans á því að ríkið afnam aldagömul réttindi almennings með einu pennastriki - þjóðnýtti þau og afhenti sumum útgerðarmönnum - allt bótalaust. Hvar á byggðu bóli myndi flokkur sem kennir sig við íhaldsstefnu og vernd réttinda einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu berjast með kjafti og klóm til að viðhalda slíku fyrirkomulagi? Verður næsta skref flokksins að bæta arðsemi í ferðaþjónustu með því að kvótasetja hálendið og afhenda ferðaskrifstofum og rútufyrirtækjum til ævarandi eignar?

Í þessu máli er engin afsökun að langt sé um liðið frá því réttindunum var úthlutað né að þau hafi síðan skipt um hendur. Nýir valdhafar í fyrrum kommúnistaríkjum Austur Evrópu létu það verða sitt fyrsta verk að skila til réttmætra eigenda eignum sem kommúnistar höfðu þjóðnýtt áratugum áður og breytti þar engu hvað gæðingar kommúnistastjórnanna höfðu brasað með þýfið í millitíðinni.

Eftir hrunið hefði Sjálfstæðisflokkurinn þurft að endurskilgreina sig sem frjálslyndan hægriflokk með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Þetta hefur flokknum ekki tekist, því miður. En kannski er enn von um að það gerist.


mbl.is Raunhæfar efnahagstillögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 287254

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband