Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Héraðsdómurinn og ólíkir hagsmunir skuldara

Nýverið felldi Héraðsdómur Reykjavíkur þann úrskurð að skuldari bílaláns skyldi greiða óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands í stað umsaminna vaxta af láni sínu. Byggði úrskurðurinn á þeirri túlkun á nýlegum Hæstaréttardómi að fyrst gengistrygging væri úr gildi fallin væru vaxtakjörin það einnig.

Skammtímalán lækka

Líklegt er að flestir sem tekið hafa lán til skemmri tíma, svo sem bílalán, geti notið nokkurs hagræðis af því að breyta kjörum og viðmiðun lánanna úr erlendum gjaldeyri á erlendum vöxtum í innlend lán á innlendum vöxtum. Til að leggja mat á hagræði af þessu er einfaldast að líta á heildargreiðslur út lánstímann og reikna svo muninn. Í bílalánsmálinu munar þriðjungi þeirrar upphæðar sem skuldarinn hefði þurft að standa skil á annars. Það er um helmingur þess hagræðis sem hann hefði notið ef höfuðstóll hefði verið færður niður í samræmi við nýfallinn dóm Hæstaréttar en samningsvextir staðið.

En hvað um húsnæðislán?

En bankar veittu líka langtímalán í erlendri mynt. Þau voru um þriðjungur erlendra lána til einstaklinga. Meginforsenda lántakenda hér var það hagræði sem hlaust af lágum og óverðtryggðum erlendum vöxtum. Gengissveiflur skila sér ávallt inn í vísitöluna hvort sem er og áhætta lántaka til lengri tíma því engu meiri en hefði innlent lán verið tekið. Þrátt fyrir helmingslækkun krónunnar standa þessir lántakendur oftast betur að vígi þegar litið er á heildargreiðslur en þeir sem innlend lán tóku.  Fullyrða má að þessi hópur bæri yfirleitt mjög skarðan hlut frá borði yrði lánunum breytt í innlend lán.

Taka má dæmi um 10 milljón króna fasteignalán með jöfnum afborgunum í svissneskum frönkum og jenum veitt til 30 ára í upphafi árs 2004, um það leyti sem bankar tóku að bjóða slík lán. Höfuðstóll væri nú tæplega 17 milljónir króna. Væri því breytt í óverðtryggt krónulán, vaxtareiknað með innlendum vöxtum en greiddir vextir og afborganir dregnar frá, væri höfuðstóllinn tæpar 16 milljónir. Kynni þá að líta út fyrir að lántakinn hefði eilítið hagræði af breytingunni.

Helmingsaukning greiðslubyrði

Þetta hagræði er hins vegar blekking. Afborganir myndu stórhækka um leið og ný vaxtaviðmiðun yrði tekin upp, bæði vegna hærri vaxta og vegna þess að við höfuðstólinn legðust þá vangreiddir vextir og vaxtavextir enda hefðu afborganir samkvæmt erlendu vöxtunum væntanlega verið talsvert lægri en ella, í það minnsta lengst framan af.  Höfuðstólsbreyting ein og sér er því rangur mælikvarði. Eina leiðin til að bera saman kostnað af ólíkum lánum er nefnilega sú að líta á heildargreiðslu vaxta og afborgana yfir lánstímann allan. Sé dæmið skoðað í þessu ljósi sést að við lok lánstímans væru samanlagðar afborganir og vextir af erlenda láninu ríflega 29 milljónir króna miðað við 3% vexti út árið 2010 og 4% eftir það, raungengisþróun frá lántökudegi og óbreytt gengi héðan af. Yrði höfuðstól breytt til samræmis við nýfallinn dóm Hæstaréttar en samningsvextir látnir standa yrðu greiðslurnar ríflega 15 milljónir. Væri láninu hins vegar breytt skv. dómi Héraðsdóms yrðu greiðslurnar tæplega 43 milljónir. Þá eru framtíðarvextir eftir 2010 miðaðir við óverðtryggða vexti Seðlabankans eins og þeir hafa að meðaltali verið síðasta áratuginn. Tap lántakans af breytingunni næmi þannig tæpum 14 milljónum króna, um 47% af heildargreiðslum miðað við óbreytt kjör og gengisviðmiðun. Óhagræði af breytingunni er mest hafi lán verið tekið fljótlega eftir að bankar tóku að bjóða upp á erlend lán en minnkar sem nær dregur hruninu. Lántaki sem tók lán sitt snemma árs 2007 yrði þannig fyrir tæplega 10% kostnaðarauka samanborið við 47% hjá þeim sem tók lánið 2004. Aðeins þeir sem tekið hefðu lán rétt fyrir hrun hefðu örlítinn ávinning af breytingunni. Hann gæti þó horfið fljótt ef gengið styrkist á ný eins og margir vænta.

Tap lánþega – hagnaður bankanna

Þannig er ljóst að standi héraðsdómurinn verða flestir skuldarar með erlend fasteignalán fyrir verulegu fjárhagstjóni. Að sama skapi nýtur bankinn mikils hagræðis af því að breyta umræddum lánum í krónulán, verðtryggð eða óverðtryggð. Því kemur ekki á óvart að bankar hafa nú um hríð boðið talsverða höfuðstólslækkun gegn slíkri breytingu. Nýfengin niðurstaða Héraðsdóms getur því tæpast orðið grundvöllur uppgjörs allra gengislána. Það stenst vart sjónarmið um neytendavernd að ólögleg samningsákvæði verði til þess að samningi sé breytt eftir á til verulegs óhagræðis fyrir neytandann.

(Mbl. 31.7.2010)

Nýtt kvótakerfi?

Þessi ábending vekur vissulega athygli. Hún er kannski fyrst og fremst til marks um það, að því fer fjarri að öll kurl séu komin til grafar í þessum málum.

Nú sitja fulltrúar ríkja heims á fundi í Balí til að ræða um loftslagsmál og losunarkvóta. Losunarkvótar eru vafalaust komnir til að vera. Þegar hefur myndast markaður með þessa kvóta og vægi hans á vafalaust eftir að aukast. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvernig þróunin verður þegar þjóðir heims, fyrirtæki og einstaklingar fara að gera sér fulla grein fyrir því að heimildir til mengunar andrúmsloftsins eru skyndilega að verða takmörkuð gæði.

Nýverið ákvað íslenska ríkisstjórnin að úthluta ekki kvótum til nýrra stóriðjuvera sem eru á teikniborðinu. Þau stóriðjuver sem fyrir eru halda hins vegar sínum kvótum. Því fer fjarri að allir hafi verið sáttir við þau málalok. Samt voru þeir sem ekki fengu kvóta aðeins að verja hagsmuni hugsanlegra, en ekki raunverulegra fyrirtækja, sem þegar höfðu hafið rekstur.

Hér á Íslandi eigum við nýlegt dæmi um sambærilegt mál, en það var þegar fiskveiðiheimildir urðu allt í einu takmörkuð gæði sem tóku að ganga kaupum og sölum. Fá mál önnur hafa valdið jafn djúpstæðum klofningi í samfélaginu og sér raunar enn ekki fyrir endann á þeim deilum sem spruttu af því með hvaða hætti fiskveiðikvótum var úthlutað á sínum tíma.

Álitamál tengd mengunarkvótum og meðferð þeirra gætu hæglega orðið í það minnsta jafn mikilvæg pólitískt og álitamálin um kvótakerfið. Það verður mikilvægara með hverjum deginu að fá að vita hver viðhorf stjórnmálaflokkanna eru til þessa máls. Er til dæmis eðlilegt að þau fyrirtæki sem nú nýta losunarheimildir haldi þeim án þess að greiða fyrir? Hvernig verður jafnræði tryggt gagnvart nýjum mengandi fyrirtækjum? Hvaða atvinnugreinar verða fyrir áhrifum af því, þegar losun mengandi efna verður kvótabundin? Mun sjávarútvegurinn til dæmis þurfa að kaupa losunarkvóta? Og hvað með landbúnaðinn?

Þessar spurningar munu koma upp á yfirborðið fyrr en varir. Þá er mikilvægt að stjórnmálamenn hafi myndað sér rökstuddar skoðanir sem byggja á framsýni og skynsemi. Sú umræða þarf að fara að hefjast, svo ekki þurfi að grípa til hraðsoðinna og vanhugsaðra lausna þegar að því kemur að leysa málið.


mbl.is Ganga skaðlegri en akstur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 287250

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband