Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Einstaklingshyggja Ayn Rand

Fyrir rúmlega 20 árum þýddi ég skáldsögu rússnesk-bandaríska rithöfundarins og heimspekingsins Ayn Rand, The Fountainhead, sem gefin var út af Fjölsýn forlagi 1991.

Nú nýverið kom bókin út í endurskoðaðri þýðingu á vegum Almenna bókafélagsins, undir heitinu Uppsprettan.
Aðalsöguhetja Uppsprettunnar er arkitektinn Howard Roark, módernisti og hugsjónamaður sem neitar að gera málamiðlanir gagnvart list sinni. Sagan er grípandi og söguhetjurnar margar hverjar stórbrotnar.

Ayn Rand fæddist í Rússlandi árið 1905. Hún nam sögu og heimspeki í St. Pétursborg, en flúði til Bandaríkjanna rúmlega tvítug, árið 1926, og bjó þar síðan. Hún varð þar vinsæll rithöfundur og áhrifamikill heimspekingur og stjórnmálahugsuður.

Uppsprettan var fyrsta skáldsaga Rand sem náði verulegum vinsældum. Bókin kom út í miðri heimsstyrjöldinni, 1943 eftir að 12 útgefendur höfðu áður hafnað henni. Hún hlaut litla markaðssetningu og blendnar viðtökur gagnrýnenda. Öllum að óvörum varð Uppsprettan þó metsölubók sem enn rennur út í bílförmum og hefur verið þýdd á fjölda tungumála.

Ekki er vafi á að það er ekki aðeins grípandi söguþráður sem veldur vinsældum þessarar bókar heldur sá heimspekilegi undirtónn sem þar er að finna. Í Uppsprettunni tekur Rand til kostanna siðfræðihugmyndir sínar, sem um margt eru nýstárlegar, og prófar þær í þeim söguheimi sem hún skapar.

Í stuttu máli snýst heimspeki Rand um mjög róttæka einstaklingshyggju sem grundvallast á frumsetningum heimspekikerfis hennar, objektivismans, sem þýða mætti sem hluthyggju á íslensku. Forsenda siðferðisins, samkvæmt Rand, er að maðurinn þarf að viðhalda eigin lífi. Af þessu leiðir hún að öll siðferðisgildi hljóti að miða að þessu marki. Því sé ósiðlegt að einstaklingurinn fórni sér fyrir aðra og einnig ósiðlegt að hann geri kröfu um að aðrir fórni sér fyrir hann. Rand endurskilgreinir egoismann, eða sjálfselskuna, og telur hina sönnu sjálfselsku, sem sé grunnur alls siðferðis, vera að lifa og starfa sem sjálfstæð hugsandi vera, forðast að nota aðra og forðast að láta aðra nota sig. Egoisti Rand er þannig maður sem lifir aðeins sjálfum sér. Hann sækist ekki eftir völdum yfir öðru fólki, ekki eftir peningum peninganna vegna, heldur aðeins því að lifa eins heilsteyptu, heiðarlegu og skapandi lífi og honum er unnt.

Ayn Rand varð kannski þekktust fyrir stjórnmálaheimspeki sína, en hún grundvallast á siðfræðikenningu hennar. Rand áleit kapítalismann vera eina stjórnskipulagið sem væri siðferðilega réttlætanlegt því það væri það eina sem gerði manninum kleift að breyta siðlega. Hún áleit hins vegar að sá hreini kapítalismi sem hún aðhylltist hefði hvergi verið til og raunar óvíst að hann yrði nokkurn tíma til. Hún er að þessu leyti ólík hefðbundnum hægrimönnum sem gjarna álíta kapítalismann gallaðan en þó illskástan þess sem í boði er, enda gagnrýndi Rand gjarna bandaríska hægrimenn og frjálshyggjumenn, sem þó vilja margir tengja hugmyndafræði sína kenningum hennar. Enn meira fór þó fyrir gagnrýni hennar á samhyggju og alræðisstefnur á borð við kommúnisma, fasisma og nasisma, enda gengju slíkar stefnur þvert gegn möguleika mannsins til siðlegs lífs.

Heimspeki Ayn Rand vakti litla athygli í fræðaheiminum lengi framan af, kannski meðal annars vegna stjórnmálaskoðana hennar, en einnig vegna þess hve brotakennt höfundarverk hennar er og erfitt að staðsetja hana innan meginstrauma heimspekinnar. Á síðustu árum hefur áhugi á kenningum hennar hin vegar farið vaxandi og hafa nokkrar áhugaverðar bækur komið út um Rand undanfarið. Það er vel, enda er Ayn Rand afar áhugaverður heimspekingur og mikið verk óunnið í rannsóknum á kenningum hennar og tengslum við aðrar heimspekistefnur. Meðal annars má benda á "Ayn Rand, the Russian Radical" eftir Chris Matthew Sciabarra, sem kom út 1995 ef ég man rétt og gefur afar glögga mynd af heimspeki Rand og tengslum við stefnur og strauma á 19. og 20. öld.


Siðferði, siðfræði og trú

Fyrir skemmstu lögðu þingmenn Hreyfingarinnar fram tillögu um að taka skyldi upp siðfræðikennslu í skólum. Virðast þingmennirnir telja að með siðfræðikennslunni muni siðferði í landinu batna.

Nú er það svo að siðfræði og siðferði eru gerólíkir hlutir. Maður getur vitað allt um siðfræði en verið með öllu siðlaus. Annar kynni svo að vera fyrirmynd um rétta breytni án þess að vita einu sinni að siðfræði er til. Og sé mið tekið af hinni, oft illvígu háskólapólitík, bendir reynslan síst til að siðleg breytni sé siðfræðikennurum efst í huga, raunar gjarna þvert á móti.

Eitt er það þó sem læra má af því að kynna sér sögu og kenningar siðfræðinnar. Það er að engum heimspekingi hefur tekist að sýna nauðsyn siðlegrar breytni án skírskotunar til æðri máttarvalda. Þó hafa margir reynt. Þessi niðurstaða kristallast kannski best í þeim orðum Friedrichs Nietsche að án guðs sé allt leyfilegt.

Nú vill hin nýja valdastétt í Reykjavík úthýsa trúarhreyfingum úr grunnskólum, banna helgileiki tengda jólum og leggja af litlu jólin eða breyta í eins konar gervihátíð án tengsla við þá kristnu arfleifð sem er grundvöllur þeirra. Einnig á að banna skólabörnum að teikna trúartengdar myndir í skólanum. Hugmyndaleg forsenda þessarar athafnasemi er mannréttindi. En þá gleymist að hugmyndin um mannréttindi verður ekki slitin frá þeirri kristnu rót hennar að hver einstaklingur sé óendanlega mikilvægur gagnvart guði. Það er eina röksemdin fyrir því að mannréttindi beri að virða.

Ennfremur má benda á að virðing hinnar nýju valdastéttar fyrir mannréttindum er ekki meiri en svo að hún hyggst ekki aðeins banna Gídeonfélaginu að gefa börnum biblíur, hvaða skaða sem það á nú að geta valdið, heldur ætlar hún líka að banna börnunum að teikna trúarlegar myndir. Vandséð er hvernig slíkt kemur heim og saman við almenn mannréttindi, en þar er tjáningarfrelsi grundvallarþáttur.

Lítill vafi er á að hnignun almenns siðferðis á stóran þátt í því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér hefur orðið. Er þá ekki réttara að reyna að byggja upp grundvöll góðs siðferðis fremur en að brjóta hann niður?


mbl.is Tillögur valda óánægju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hestgjafinn??

Við hjónin ösnuðumst til að kaupa prufuáskrift að uppskriftablaðinu Gestgjafanum.

Misstum samt eiginlega lystina þegar okkur barst fyrsta tölublaðið, stútfullt af hestaketsuppskriftum.

Flaug þá í hug að líklega færi betur á að blaðið héti Hestgjafinn. Veltum svo fyrir okkur með nokkrum óhugnaði hvert þema næsta blaðs yrði: Hundaket, mannaket??

Við ætlum þá að senda inn uppskriftir. Til dæmis kryddlegnar auðmannalundir. Eða atvinnuleysingjasmásteik af fullorðnu! 


Roð, fiskar, færi og net

Halldór Blöndal fjallar um nýju biblíuþýðinguna í ágætum pistli í Mogga um helgina. Sýnir hann fram á að máltilfinningu þýðingarnefndar virðist eitthvað ábótavant og tekur sem dæmi orðalagið að „leggja net til fiskjar“.

Þessu svarar sr. Sigurður Pálsson í blaðinu í gær. Virðist hann misskilja gagnrýni Halldórs og halda að þeim síðarnefnda finnist annkannalegt að tala um netalögn. Það er bersýnilega ekki svo:

Menn róa til fiskjar. Svo renna þeir fyrir fisk og kannski kemur fiskur aðvífandi og bítur á. Menn leggja net. En þeir leggja þau ekki til fiskanna heldur fyrir þá. Alveg eins og þeir renna færinu fyrir fiskana en ekki til þeirra. Alveg eins og við leitum einhverju, en ekki af því.

Að skrifa texta er á margan hátt eins og að leggja net. En það net er ekki lagt fyrir fiska heldur orð. Netið er máltilfinning höfundarins. Hún fæst bara með því að lesa góðar bækur og hlusta á fólk sem hefur góða máltilfinningu. Ef netið er vel riðið raðast orðin í það fagurlega. En ekki ef það er gisið og götótt.

Eins og Halldór Blöndal bendir réttilega á er margt ankannalegt í orðfæri nýju biblíuþýðingarinnar. Netið er feyskið og textinn því eins og bögglað roð fyrir brjósti lesandans. Slíkt gerist stundum þegar nefndir skrifa.

Halldór hvetur Biblíufélagið til að prenta nýtt upplag af eldri útgáfu Biblíunnar. Ég tek undir það. Biblíufélagið á ekki að bjóða lesendum upp á ruður heldur fallegan afla veiddan með haglega gerðu neti.


Ekki fleiri opin bréf, takk

Ég vonast til þess að þessum opnu bréfasendingum taki að linna. Þjóðkirkjan og Siðmennt ættu að sjá sóma sinn í því að boða frekar til ráðstefnu um þessi mál þar sem þau yrðu rædd á breiðum grundvelli og af skynsamlegu viti. 


mbl.is Siðmennt svarar biskup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misráðinn hernaður

Ég held, því miður, að Siðmennt sé að gera mikil mistök með kröfu sinni um afsökunarbeiðni frá biskupi og öðrum svipuðum upphlaupum undanfarið. Nú er ég fjarri því að vera sérstaklega hrifinn af Siðmennt þar sem mér finnst þessi áhersla á að búa til einhvers konar eftirlíkingar af kristnum athöfnum frekar óspennandi.

Ég ber hins vegar mikla virðingu fyrir skoðunum trúleysingja enda hlýtur allt sanngjarnt fólk að vera sammála því að þær eiga við fullgild rök að styðjast. Það merkir hins vegar ekki að aðrir geti ekki haft aðra lífsafstöðu, grundvallaða á nákvæmlega jafngildum rökum.

Þótt margt sé gott í málflutningi Siðmenntar og gagnrýni á kirkjuna finnst mér þó nýleg upphlaup í tengslum við kristnifræðikennslu og aðkomu kirkjunnar að skólastarfi ekki samtökunum til framdráttar. Jafnvel mætti segja að þau séu tekin að koma óorði á málstað trúleysingja. Það er slæmt.

Orð biskups sem Siðmennt krefst nú afsökunarbeiðni á tengjast auðvitað þessum upphlaupum og endurspegla þá ímynd sem samtökin hafa því miður verið að gefa af sér undanfarið. Mér finnst krafan um afsökunarbeiðni líka lýsa svolítilli móðursýki. Það þarf enginn að skammast sín fyrir að vera hatrammur málflytjandi eða andstæðingur einhvers. Það er engin siðferðileg fordæming fólgin í því hugtaki!

Svo stuttlega sé komið að málflutningnum sjálfum hefur Siðmennt krafist þess að ekki sé stundað trúboð í skólum, því foreldrar eigi að ráða því sjálfir hvaða viðhorf börnum þeirra eru innrætt. Það kann að virðast sanngjörn krafa. En er það endilega víst?

Trúboð er innræting ákveðinna lífsskoðana, rétt eins og predikun trúleysis er innræting ákveðinna lífsskoðana. Innræting lífsskoðana á sér stað alls staðar í skólakerfinu. Það að boða jafnrétti, manngildi og umburðarlyndi er innræting lífsskoðana og það er alls ekki víst að allir séu sammála þeim túlkunum á þessum gildum sem þar eru lögð til grundvallar. Þess utan eru börnum beint og óbeint kenndar aðrar lífsskoðanir, sem kannski eru ekki jafn jákvæðar, svo sem áhersla á efnaleg gæði, reglan um auga fyrir auga og svo framvegis. 

Fyrri spurning mín varðandi þetta er kannski þessi: Ef hafna á innrætingu lífsskoðana í skólum verður þá ekki jafnt yfir allar að ganga? Er yfirleitt hægt að forðast slíka innrætingu svo lengi sem við erum þátttakendur í samfélaginu?

Síðari spurningin er þessi: Er það eitthvað réttmætara að foreldrar stjórni því hvaða lífsskoðanir börnum eru innrættar en að það mótist af almennum viðhorfum í samfélaginu? Eru foreldrar einhvers konar einræðisherrar yfir börnum sínum sem hafa rétt til að stjórna og móta skoðanir þeirra?


mbl.is Krefjast afsökunarbeiðni frá biskupi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af því að páfinn sagði það

Þetta eru greinilega alvarlegar athugasemdir sem þarna hafa verið settar fram. Slíkri gagnrýni er hvorki nægjanlegt að svara með skætingi né vísan til menntunar þeirra sem gerðu ætluð mistök. Miðað við umræðuna undanfarið virðast hins vegar aðstandendur þýðingarinnar yfirleitt bregðast við gagnrýni á þann hátt.

Það er verulega slæmt mál ef þýðingin er svo illa unnin að virtir fræðimenn á sviði málfræði og textafræði sjái ástæðu til að gera við hana alvarlegar athugasemdir. Maður fékk á tilfinninguna þegar þessi þýðing kom út að allt væri reynt að gera til að hamla umræðu um hana og þagga niður í gagnrýnisröddum. Greinilegt að PR vinnan var vel unnin. En sé verkið gallað kemur það auðvitað í ljós á endanum.

Ég minnist þess að áður en þýðingin kom út hafði einhver gagnrýni ratað á síður blaðanna og var því meðal annars haldið fram að ekki hefði farið fram nægjanlega ítarleg umræða meðal fræðimanna til að hægt væri að segja að verkið væri tilbúið. Aðstandendur brugðust alltaf ókvæða við slíkum ábendingum og virtust taka alla gagnrýni mjög persónulega.

Í þetta verk er búið að eyða áralangri vinnu fjölda fólks og væntanlega ótöldum milljónatugum. Það er verulega alvarlegt mál ef ekki hefur tekist almennilega til.


mbl.is „Hvað heldurðu að við höfum verið að gera?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynjafræði, marxismi og almannavalsfræði

Um síðustu helgi var haldin ráðstefna um svonefnda "kynjafræði" sem virðist eiga mjög upp á pallborðið hjá ýmsum um þessar mundir. Fræðigrein þessi mun m.a. kennd við Háskóla Íslands.

Samkvæmt kynningu á vef H.Í. er kynjafræði fræðigrein þar sem "þverfaglegu og femínisku sjónarhorni beitt til að skoða stöðu kynjanna í mismunandi samfélögum og menningarsvæðum, í sögulegu samhengi og í samtímanum."

Á síðustu áratugum hefur sjónarhorn marxista átt sér mikinn hljómgrunn í fræðasamfélaginu, hvort sem litið er á sögu, samfélagsfræði eða jafnvel hagfræði. Í marxismanum er sjónum beint að stéttabaráttu og er forsendan sú að öll söguleg þróun eigi sér rætur í henni.

Nú á síðustu árum hefur svonefnd "almannavalsfræði" rutt sér mjög til rúms meðal ýmissa frjálshyggjusinnaðra hagfræðinga. Samkvæmt almannavalsfræðinni má skýra ákvarðanir og athafnir stofnana og einstaklinga innan stjórnkerfisins með vísan til eigin hagsmuna þeirra sjálfra, hvort sem er til lengri eða skemmri tíma.

Allar eiga þessar "fræðigreinar" tvennt sameiginlegt: Í fyrsta lagi er í þeim öllum gengið út frá fyrirfram gefinni forsendu um hvernig heimurinn sé. Í marxismanum er gengið út frá kenningunni um díalektíska efnishyggju - að allt megi skýra með vísan til stéttarhagsmuna. Í almannavalsfræðunum er gengið út frá forsendunni um persónulega efnahagslega hagsmuni og að allar athafnir þeirra sem sjónum er beint að megi skýra út frá þeim. Í kynjafræðinni er gengið út frá forsendunni um að söguleg og samfélagsleg þróun snúist um átök milli kynja.

Marxismi, almannavalsfræði og kynjafræði geta án vafa verið gagnlegar nálganir, eða áhugaverðar kenningar, sem vissulega geta nýst til að skilja heiminn betur. En þær eiga það allar sameiginlegt að vera kenningar, ekki fræðigreinar.

Í háskólum er kennd sagnfræði og félagsfræði, ekki marxismi. Þar er kennd hagfræði, ekki almannavalsfræði. Marxismi og kenningin um almannaval eru hins vegar mikilvægir þættir í námi í sagnfræði, félagsfræði, hagfræði og heimspeki. Og þá kemur spurningin: Hvað greinir hina svokölluðu kynjafræði frá öðrum kenningum um samfélag og sögu sem gerir að verkum að hún verðskuldi stöðu fræðigreinar, þótt hún virðist augljóslega ekki vera það?


Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband