Skrifa börn fyrirsagnirnar?

"Sterkasta og stöðugasta króna í heimi" er fyrirsögn fréttar þar sem inntakið er hagspá sem vægast sagt dregur upp viðsjárverða mynd af gjaldmiðli í ofrisi og hagkerfi sem hvílir á frekar ótraustum undirstöðum.

Og hvað er eiginlega átt við með fyrirsögninni? Átti kannski að standa þarna að krónan væri sterkasti og stöðugasti gjaldmiðill í heimi (of sterk í sögulegu samhengi vissulega, en stöðugleikinn bersýnilega álitamál þegar flöktið fer sívaxandi)?

Eða voru greiningardeildarmenn einfaldlega að grínast í barninu sem skrifaði fréttina?


mbl.is Sterkasta og stöðugasta króna heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ímynd?

Ástæðan fyrir því að fólk fer ekki í kennaranám er að námið er allt of langt með hliðsjón af þeim launum sem í boði eru.

Ímynd kennarastarfsins líður svo auðvitað fyrir síversnandi árangur í menntakerfinu - það er eðlilegt að orsakanna sé leitað, í það minnsta að hluta, í frammistöðu kennaranna.

Vandséð er því að ímynd kennarastarfsins batni þótt farið verði að ráða fólk af barnaheimilunum inn í skólana. Auk þess ýtir slíkt vitanlega bara vandanum yfir á barnaheimilin.


mbl.is Ímynd kennarastarfsins í krísu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klikkunin í algleymingi

Er ekki kominn tími til að fólk fari aðeins að gæta að sér í allri þessari pólitísku rétthugsunarklikkun?

Hvað næst? Ætli þeir fyrirskipi manngarminum að skipta um eftirnafn? Það væri eftir öðru.


mbl.is Fær ekki að vera með einkanúmerið „GRABHER“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Múli og Þorsteinn Ö. - og Perse

Mikið óskaplega er Ríkissjónvarpið leiðinlegt.

Nú er til dæmis verið að sýna afgamla ameríska dans og söngvamynd, líklega í tíunda sinn. Viðmiðið í kvikmyndavalinu er að öllum líkindum að höfundarrétturinn sé útrunninn þegar um bíómyndir er að ræða. Valið á heimildamyndum snýst svo um að efnið sé eins óáhugavert og hugsast getur, kvikmyndatakan þannig að helst líti út fyrir að tökumaðurinn sé drukkinn eða þaðan af verra, þulnum leiðist og leikstjórinn hafi ekki einu sinni leitt hugann að þeirri fjarstæðu að reyna að afla sér höfundarréttar á ósköpunum. Og myndirnar sænskar.

Samt held ég tryggð við þetta - hef þ.e. aldrei látið mér detta í hug að kaupa áskrift að annarri sjónvarpsstöð. Er líklega hollvinur RÚV. Þó ekki þannig að ég hafi gengið í Hollvinasamtökin sem hafa það opinbera markmið að æsa sig ef einhver komminn er rekinn, en líklega það leynilega markmið að vekja upp Jón Múla og Þorstein Ö. frá dauðum og hafa í útvarpinu, líka þótt það takist ekki alveg að vekja þá upp. Banna litasjónvarpið. Svarthvíta líka. Útvarpa svo bara á langbylgju. Tvo tíma á dag. Fréttir. Og karlakórar.

----

Annars er kannski bara ágætt að það sé leiðinlegt í sjónvarpinu.

Meðan dansmyndin kláraðist tókst mér að minnsta kosti að byrja að kynna mér einkar frumlega greiningu Carol Rigolot á Anabase eftir Saint-John Perse, en hún hefur komist að því að líklega sé Perse í kvæðinu í og með að hæðast að hugmyndum Platóns og Sókratesar um hið fullkomna ríki (enda pirraður á Platóni eins og flestir með viti). Í ríki Platóns er enginn óþarfur, en í ríki Perse er pláss fyrir bæði "þann sem hugleiðir líkama kvenna" og hinn "sem hefur ferðast og dreymir um að fara aftur".

----

(titillinn er tilraun til að sannprófa þá kenningu Sæmundar Bjarnasonar að fleiri lesi bloggið ef mannanöfn eru í titlinum (en kannski eru svosem allir búnir að gleyma jónimúla og þorsteiniö))


Ekki missa af Fórn í Borgarleikhúsinu

Það er ekki oft sem okkur hér á klakanum gefst tækifæri til að sjá stórfenglega listviðburði. En einn slíkur er nú í gangi í Borgarleikhúsinu. Fórn eftir Ernu Ómarsdóttur, Valdimar Jóhannsson, Matthew Barney, Ragnar Kjartansson, Margréti Björnsdóttur og Gabríelu Friðriksdóttur er eitthvað það magnaðasta sem sést hefur hér á landi. Viðburðurinn samanstendur af fjórum sýningum, blöndu tónlistar, balletts og kvikmyndalistar, hverri annarri betri, og nær hámarki í hinni stórkostlega frumlegu kvikmynd Barney, Ernu og Valdimars, “Union of the North”.

Fórn er einhver metnaðarfyllsti listviðburður sem sést hefur hérlendis og verður lengi í minnum hafður. Ég hvet alla sem hafa áhuga á framsækinni listsköpun til að láta Fórn ekki framhjá sér fara.


Spillingarmálin eru víða

Ég efast ekki um það eitt andartak að flestöll fyrirtæki sem eiga viðskipti að einhverju ráði við stjórnvöld í spilltum einræðisríkjum greiði mútur. Þau eru bara misflink að fela það.

Ég held líka að Íslendingar geti tæpast sett sig á háan hest þegar kemur að slíku. Hér felst spillingin í atkvæðakaupum stjórnmálamanna fyrir almannafé. Hvað eru Vaðlaheiðargöng og Kárahnjúkavirkjun annað en stórvaxin spillingarmál af slíkum toga.

Mér finnst ekki að ég eigi að þurfa að hafa af því sérstakar áhyggjur hverjir eiga banka og hverjir ekki. Stjórnmálamenn eiga ekki að þurfa að hafa af því áhyggjur heldur. Bankarekstur á einfaldlega að lúta sömu lögmálum og annar rekstur. Sá sem leggur fé sitt í banka á að gera það á eigin ábyrgð. Það á ekki að vera hægt að ganga í fjármuni skattgreiðenda ef illa fer í bankarekstrinum, en sú slæma venja er meginástæða þess að eigendur og starfsmenn banka græða þegar vel gengur, en þegar illa gengur lendir tapið á skattgreiðendum.


mbl.is Nýir eigendur í spillingarmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verð og arður hanga saman

Það er undarleg hagfræði að halda að þegar maður selur eitthvað sé það eina sem breytist það, að arðurinn af því hætti að renna til manns.

Auðvitað er það svo að söluverð á fyrirtæki eða annarri eign ræðst af því hver arðurinn af eigninni er. Kaupandinn fær vissulega í sínar hendur framtíðararðinn. En, surprise, surprise (fyrir menn eins og Frosta) ... seljandinn fær kaupverðið greitt frá kaupandanum!

Þessu þurfa sumir að fara að reyna að átta sig á.


mbl.is Vaxtagreiðslur heimilanna úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindi?

Það er svo sannarlega athygliverð rannsóknaraðferð að skoða þrjú lönd af tæplega 200 löndum í veröldinni og draga svo af þeirri athugun þá ályktun að með þessu sé sýnt fram á samhengi milli fyrirkomulags áfengissölu og þess hversu algengir tilteknir sjúkdómar eru.

Þetta er álíka vísindalegt og að spyrja þrjá íbúa í 200 manna þorpi um stjórnmálaskoðanir þeirra og draga af því ályktun um skoðanir allra þorpsbúanna.


mbl.is Aukið aðgengi eykur skaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuskapandi?

Það er eflaust atvinnuskapandi fyrir kontórista að krefjast þess að fólk fái vottorð frá Heilbrigðiseftirlitinu til að geta leigt út íbúðina sína, en þvílíkur yfirgengilegur kjánaskapur er þetta nú!


mbl.is Kostar 77.560 að skrá heimagistingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstaklingsmiðuð samræmd próf?

Eitthvað hljómar það nú einkennilega að tala um að samræmd próf geti verið einstaklingsmiðuð. Hvað merkir það? Að prófin séu þannig hönnuð að allir fái sömu einkunn, læsir sem ólæsir, þeir sem eitthvað kunna og þeir sem ekkert kunna?

Kannski er það hin fullkomna leið til að koma endanlega í veg fyrir að nokkurn tíma verði tekið á því sívaxandi metnaðarleysi sem einkennir íslenskt grunnskólakerfi.

Svo er bara að passa að prófin verði einstaklingsmiðuð líka í framhaldsskólum og háskólum - og setja svo í lög að fyrirtækjum sé óheimilt að mismuna starfsmönnum eftir getu, hvort sem er við launaákvarðanir eða ráðningar.

Þá er björninn unninn.


mbl.is Aðdragandi prófsins ýtti undir kvíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Hitt og þetta

Höfundur

Þorsteinn Siglaugsson
Þorsteinn Siglaugsson

Heimspekingur, hagfræðingur og rekstrarráðgjafi og vonsvikinn frjálshyggjumaður.

Athugasemdir eru birtar, en aðeins ef þær eru kurteislegar að mati síðuhaldara. Dónalegum athugasemdum verður hafnað.

Mars 2017
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot 2023-03-02 at 21.37.26
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.11
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.23
  • Screenshot 2023-03-02 at 21.41.44

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 287251

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband